laugardagur, janúar 24, 2009

Árið 2008

Jæja, er ekki best að sýna smá lit og skrifa eitthvað.
Árið 2008 var gott ár....
Ari Rafn var hjá Gitte dagmömmu allt árið og þroskaðist eftir bókinni. Hætti með bleyju 2 ára og 2 mánaða og geri aðrir betur. Talar bæði dönsku og íslensku og er ansi duglegur að skipta á milli alveg eftir því hvern hann talar við. Varð 2 ára í mars og hélt fína afmælisveislu í barnaherberginu fyrir vini sína hérna á kolleginu og ættmenni frá Roskilde. Er mikill útistrákur og lærir auðvitað mikið af eldri systkinum sínum...bæði gott og slæmt.

Birtan okkar er búin að stunda skátastarfið af miklu kappi allt árið, finnst þetta alveg ofboðslega gaman og ekki skemmir fyrir að Lærke vinkona hennar er í sömu grúppu. Slatti af túrum hafa verið farnir á árinu og hefur hún farið í þá alla. Nokkur hafa merkin bæst á skyrtuna og er sú stutta stolt af því. Sundið hefur hún líka stundað einu sinni í viku, stundum oftar og er hún orðin ansi góð að synda skvísan. Er dugleg í skólanum en mætti kannski tala aðeins minna, ha ha. (soldið lík mömmu sinni) Hún byrjaði svo í 1V í haust eftir að bekknum hennar var skipt í tvennt og sameinað öðrum bekk en það virðist ekkert hafa verið slæmt fyrir skvísuna, það eina sem skipti máli var að Rasmus og Stevan, bestustu vinir hennar fóru líka í sama bekk. Ekki spilti fyrir árinu að hún eignaðist litinn bróðir í maí, hann Óðinn Leó, og finnst henni hann auðvitað algjört krútt. Varð 7 ára í desember og bauð bekknum sínum og þremur vinkonum í veislu í barnaherberginu þar sem troðið var í sig pizzu og kökum. Fékk svo afmælisveislu nr 2 á Íslandinu þar sem mættu fjölda fólks.

Kristófer, stóri strákurinn okkar breyttist úr strák í ungling á árinu...byrjaði í 3U og gengur mjög vel í skólanum. Skátastarfið stundaði hann á fullu og hafði mamma hans nóg að gera að sauma merki á skyrtuna. Fór í alla túrana á árinu eins og systir hans. Var líka ansi duglegur í sundinu og búinn að koma heim með margar viðurkenningar. Fór í hyttetur með bekknum sínum í 3 daga og svo í haust fór hann með fritids í koloni í 5 daga. Stefnir ótrauður á að verða rithöfundur og er farinn nú þegar að láta til sín taka. Teiknar og skrifar sögur og hefur honum tekist svo vel að honum var boðið að láta nokkrar liggja á skólabókasafninu til útláns fyrir krakkana. Varð 9 ára í febrúar og fékk hann strákana í bekknum og einn vin til viðbótar í partý í barnaherberginu þar sem var troðið í sig pizzu og glápið á Scary Movie...

Af börnunum okkar á Íslandi er auðvitað allt gott að frétta. Stefán Blær varð 8 ára í júlí mánuði og er hann algjör fótboltagaur. Æfir á fullu með Selfossi og stendur sig auðvitað frábærlega. Ásrún Ýr varð 6 ára í mars og æfir fimleika með Selfossi. Byrjaði í skóla síðastliðið haust og er hæstánægð með það.
Annars erum við búin að ferðast ansi mikið árið 2008.

Í marsmánuði skellti mamman sér til Berlínar með 14 öðrum frábærum kellingum sem eru helst þekktar fyrir það að búa eða hafa búið á Öresundskolleginu. Gistu allar hjá Rut, fyrrverandi saumaklúbbsbúa og var þetta alveg geggjuð ferð í alla staði. Eitt af því helsta sem stóð uppúr þeirri ferð er ferðin á blindraveitingastaðinn þar sem sumum datt í hug að borða eftirréttinn á túttunum, ha ha ha.

Fórum líka í sumarbústað yfir páskana með Kollu, Óla og börnum og var það alveg hrikalega gaman.

Í apríl fórum við í helgarferð með vinafólki okkar til Stettin í Póllandi. Keyrðum með rútu fram og tilbaka og var þessi ferð algjör slökunarferð með áti á góðum mat og drykkju.

Í maí fórum svo feðgarnir Jói og Ari Rafn í helgarferð til Íslands þar sem þeir eyddu tíma með SB og ÁÝ og fleirum. Pabbinn náði reyndar að vera veikur næstum allan tímann en þessi ferð var nú samt þess virði.

Svo vorum við nú auðvitað í 3 vikur á Íslandi í sumar þar sem margt var brallað, sumarbústaður, útilega, hótelgisting, djamm ofl ofl. Jólum og áramótum var svo líka eytt á Íslandinu.

Svo í nóvember var komið að pabbanum að fara til Berlínar með kollegikörlunum og skemmtu þeir sér alveg kostulega.

Við fullorðnafólkið fórum á tvenna góða tónleika á árinu. Duran Duran og REM mættu til Köben og láku nokkur gleðitár á þeim tónleikum. Pabbinn söng sóló í fyrsta sinn á tónleikum og stóð sig afbragðs vel. Er búinn að vera í söngkennslu allt árið og verður auðvitað betri og betri. Nokkrar voru líka strandferðir á árinu, nokkur sommerfest og julefest. Jólatívolí var heimsótt, Bon Bon land og Bakken. Bergdís Líf frænka kom í heimsókn og var hjá okkur í 10 daga og var alveg yndislegt að hafa hana. Eftir sumarfríið byrjaði mamman svo í praktik í Specialbörnehaven De Fire Birke og klárar þá praktik í lok janúar 2009.

Eins og þið sjáið er nú búið að vera nóg að gera hjá okkur á árinu og verður 2009 ennþá meira spennandi.....
Takk fyrir í þetta sinn....
Ævintýrafararnir.